Lög félagsins

Nafn félagsins, heimili og tilgangur

1. gr.

Félagið er einkahlutafélag. Heiti félagsins er Sjávarútvegsráðstefnan ehf..

2. gr.

Heimilisfang félagsins er Smáratorg 3, 201 Kópavogur, c/o Deloitte hf.

3. gr.

Tilgangur félagsins er að halda árlega ráðstefnu til að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um sjávarútveg og að vera vettvangur fyrir samskipti allra þeirra sem koma að sjávarútvegi á Íslandi. Félagið er ekki hagsmunasamtök einstakra hópa og vinnur ekki að hagsmunagæslu.

Hlutafé félagsins

4. grein

Hlutafé félagsins verði 119 hlutir, er 595.000 krónur og skiptist það í jafn marka hluti sem hver er að fjárhæð 5000 króna. Enginn einstaklingur eða lögaðili má eiga meira en 5% hlutafjárins. Enginn arður er greiddur til hluthafa og hagnaður er settur í varasjóð og nýttur til fjármögnunar á ráðstefnum.

5. grein

Heimilt er að hækka hlutafé félagsins með ályktun hluthafafundar og þarf til sama magn atkvæða og til breytinga á samþykktum þessum. Hluthafar skulu hafa forgangsrétt að öllum nýjum hlutum í hlutfalli við skráða hlutafjáreign sína. Hluthafafundur einn getur ákveðið lækkun hlutafjár. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er stjórn félagsins heimilt að hækka hlutafé félagsins um allt að 500.000 kr. að nafnverði eða 100 hluti á genginu 1 eða í samtals 1.095.000 kr.  

 

6. grein

Stjórn félagsins skal halda hlutaskrá samkvæmt lögum og skal skrá í hana nafn hvers einstaks hluthafa og hlutafjáreign hans ásamt dagsetningu eigendaskipta og skráningardag hverrar færslu.

7. grein

Eigendaskipti að hlutum í félaginu taka ekki gildi gagnvart því fyrr en stjórn þess hefur verið tilkynnt um það skriflega eða að þau hafi verið færð í gerðabók. Stjórn félagsins hefur forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum. Að félaginu frágengnu hafa hluthafar forkaupsrétt að hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Verði ágreiningur um verð hluta skal það ákveðið að mati tveggja óvilhallra manna sem dómkvaddir skulu til þess starfa af Héraðsdómi Reykjaness. Forkaupsrétthafi hefur eins mánaðar frest til að neyta forkaupsréttar síns og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð. Þá mega eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því að kaup voru ákveðin þar til kaupverð er greitt. Eigendaskipti vegna arfsals til lögerfingja við andlát hluthafa lúta ekki framangreindum forkaupsréttarreglum. Óheimilt er að veðsetja eða gefa hlutabréf í félaginu án samþykkis félagsstjórnar.

8. grein

Félagið má eigi veita lán út á hluti í félaginu. Félaginu er heimilt að kaupa eigin hluti að því marki sem lög leyfa. Óheimilt er að neyta atkvæðisréttar fyrir þá hluti sem félagið á sjálft.

9. grein

Hluthafar bera ekki ábyrgð á skuldbindingum félagsins umfram hlut sinn í félaginu.

Hluthafafundir

10. grein

Æðsta vald í málefnum félagsins, innan þeirra marka er samþykktir þessar og landslög setja, er í höndum lögmætra hluthafa, sbr. lög um einkahlutafélög.

11. grein

Aðalfundur skal haldinn í tengslum við árlega ráðstefnu. Aðalfundarboð og gögn skulu vera aðgengileg á vefsíðu ráðstefnunnar 14. dögum fyrir fund. Aukafundi skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða að kröfu hluthafa sem ráða a.m.k. einum tíunda hlut hlutafjár í félaginu. Skal krafan skriflega gerð og fundarefni tilgreint og fundur boðaður þá innan fjórtán daga frá því að krafa um fund er gerð. Ef stjórn félagsins skirrist við að boða fund þrátt fyrir móttöku slíkrar kröfu getur hluthafi leitað atbeina hlutafélagaskrár sbr. ákvæði laga um einkahlutafélög. Aðalfundur kýs stjórn sem jafnframt er ráðstefnuráð. Við val á stjórn skal leitast við að stjón félagsins endurspegli sem best starfsemi sjávarútvegs.

12. grein

Félagsstjórn skal boða til hluthafafundar með tilkynningu til hvers hluthafa með tölvupósti eða á annan jafnsannanlegan hátt. Aðalfund skal boða með minnst fjórtán daga fyrirvara en aukafund með minnst sjö daga fyrirvara. Fundarefnis skal getið í fundarboði. Hluthafafundur er lögmætur ef hann er löglega boðaður og mættir eru hluthafar eða umboðsmenn þeirra sem hafa yfir að ráða fimmtungi hlutafjár í félaginu að minnsta kosti. Verði fundur ólögmætur vegna annmarka að þessu leyti skal boða til nýs fundar innan mánaðar með sjö daga fyrirvara og verður sá fundur lögmætur til að ræða þau mál sem ræða átti á fyrri fundinum ef á hann mæta tveir hluthafar eða fleiri eða umboðsmenn þeirra, enda ráði þeir yfir fimmtungi hlutafjár í félaginu hið minnsta. Hluthafafundur kýs fundarstjóra og fundarritara.

13. grein

Eitt atkvæði er fyrir hvern 5.000 króna hlut. Hluthafar geta með skriflegu umboði veitt umboðsmönnum heimild til að sækja hluthafafund og fara með atkvæðisrétt sinn. Á hluthafafundi ræður afl atkvæða nema öðruvísi sé fyrir mælt í landslögum eða samþykktum þessum.:

Samþykki allra hluthafa þarf til þess að:

  1. skylda hluthafa til þess að leggja fram fé til félagsins umfram þarfir og fram yfir skuldbindingar sínar.
  2. takmarka heimildir manna til meðferðar á hlutum sínum.
  3. breyta tilgangi félagsins að verulegu leyti.
  4. breyta ákvæðum samþykktanna um hlutdeild manna í félaginu eða jafnrétti þeirra í mil

Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins eða sameiningu þess við önnur félög má ekki taka til meðferðar á fundum þess nema þess hafi verið getið í fundarboði.

14. grein

Á aðalfundum skulu tekin fyrir þessi mál:

  1. Stjórn félagsins skal skýra frá rekstri þess á liðnu ári og hag þess í árslok.
  2. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár skal lagður fram ásamt athugasemdum endurskoðanda félagsins til samþykktar.
  3. Tekin skal ákvörðun um hvernig fara skal með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð.
  4. Ákvörðun skal tekin um greiðslur til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu.
  5. Kosning í stjórn félagsins, sem skal vera skrifleg sé þess óskað af hálfu eins hluthafa eða fleiri.
  6. Kosning endurskoðunarfélags fyrir félagið.
  7. Umræður og atkvæðagreiðslur um önnur málefni sem löglega eru upp borin.
15. grein

Fundargerðarbók skal haldin og í hana skráð það sem gerist á hluthafafundum.

Stjórn félagsins

16. grein

Stjórn félagsins skal skipuð 7-8 aðalmönnum, kjörnum á aðalfundi til tveggja ára í senn. Ár hvert skulu 4 stjórnarmenn ganga úr stjórn og 4 nýir stjórnarmenn kosnir í þeirra stað. Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli hluthafafunda og gætir hagsmuna þess gagnvart þriðja manni. Undirskrift meirihluta stjórnar eða tveggja stjórnarmanna auk stjórnarformanns skuldbindur félagið. Stjórn félagsins skal halda a.m.k. tvo fundi á ári. Heimil er stjórninni að halda símafundi með notkun fjarskiptabúnaðar og gilda sömu reglur um þá fundi og aðra fundi.

Framkvæmdastjóri

17. grein

Stjórn félagsins getur ráðið framkvæmdastjóra til félagsins og ákveður þá starfskjör hans og veitir prókúruumboð fyrir félagið. Stjórnarmaður getur einnig verið framkvæmdastjóri þess. Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins og kemur fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Hann sér um reiknings¬hald og ráðningu starfsmanna. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðanda allar upplýsingar um rekstur félagsins sem þeir kunna að óska eftir og veita ber lögum samkvæmt.

Uppgjör og endurskoðun

18. grein

Á aðalfundi félagsins skal kjósa félaginu endurskoðanda eða endurskoðunarfélag til eins árs í senn. Það skal rannsaka reikninga félagsins fyrir hvert starfsár og leggja niðurstöður sínar fyrir aðalfund. Endurskoðanda má ekki kjósa úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna félagsins.

19. grein

Starfsár félagsins og reikningsár skal vera 1. janúar til 31. desember. Stjórn félagsins skal hafa lokið gerð ársreiknings og lagt fyrir endurskoðanda eigi síðar en einum og hálfum mánuði fyrir aðalfund.

Arðsúthlutun og varasjóðir

20. grein

Óheimilt er að greiða út arð úr félaginu.

Breytingar á samþykktum

21. grein

Samþykktum þessum má breyta á lögmætum aðalfundi eða aukafundi með meirihluta atkvæða fundarmanna, enda sé annað atkvæðamagn ekki áskilið í samþykktum eða landslögum. Verði hluthafi í félaginu aðeins einn getur hann breytt samþykktum þessum með skráningu ákvörðunar sinnar í gerðabók félagsins. 

 

Félagsslit og samruni

22. grein

Með tillögum um slit og skipti á félaginu eða samruna við annað félag eða önnur félög skal fara sem um breytingar á samþykktum þessum. Þarf atkvæði hluthafa sem ráða minnst 2/3 hlutum af heildarhlutafé félagsins til að ákvörðun um slit eða samruna verði gild. Hluthafafundur, sem tekið hefur löglega ákvörðun um slit eða skipti félagsins, skal einnig ákveða ráðstöfun á eignum þess og skuldum. Verði félaginu slitið þá skulu eignir þess renna óskiptar til Landsbjargar.

Önnur ákvæði

23. grein

Þar sem ákvæði samþykkta þessara segja ekki til um hvernig með skuli farið skal hlíta ákvæðum laga um einkahlutafélög, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.

 

Þannig samþykkt á aðalfundi 20. nóvember 2015.