Að lokinni Sjávarútvegsráðstefnu

Erindi á netinu

Nú er hægt að sækja öll erindi sem haldin voru á Sjávarútvegsráðstefnunni 2015 á vef ráðstefnunnar undir liðnum Dagskrá 2015. Einnig hafa nemar Háskólans á Akureyri haldið úti Facebook síðu þar sem er að finna samantekt úr erindum. .

Þátttakendur

Skráðir þátttakendur voru um 750 og hafa aldrei verið fleiri. Mestur fjöldi þátttakenda í ráðstefnusölum var um 550 manns, en margir sóttu aðeins hluta ráðstefnunnar. Rúmlega þrjú hundruð manna fundarsalir voru þétt setnir í nokkrum málstofum, eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Það sem fram fer utan ráðstefnusala er einnig mikilvægt, en Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem menn hittast, styrkja sambönd og samstarf í greininni.

Afkoma

Það er nú að verða ákveðin þáttaskili hjá Sjávarútvegsráðstefnunni. Fram að þessu hefur reksturinn verið í járnum sem hefur takmarkað umfang starfsemi félagsins. Skráðum þátttakendum hefur fjölgað úr rúmlega 300 manns árið 2010 upp í um 750 manns á þessu ári. Á sama tíma hefur ráðstefnugjaldið hækkað úr 9.000 kr upp í 15.000 kr. Með auknum fjölda ráðstefnugesta og hærra ráðstefnugjaldi aukast tekjur og við það skapast ný tækifæri til sóknar og við getum jafnframt betur uppfyllt þarfir okkar viðskiptavina í framtíðinni. Á síðustu árum hefur framlag styrktaraðila verið drifkrafturinn við uppbyggingu á Sjávarútvegsráðstefnunni. Það má heldur ekki gleyma framlagi fyrirlesara, stjórn félagsins o.fl. sem hafa gefið sitt framlag.

Framúrstefnuhugmynd

„Svifaldan” verðlaunagripurinn fyrir Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2015 var nú veitt í fimmta sinn. Margildi ehf. hlaut fyrstu verðlaun, en hugmyndin er að framleiða Marlýsi, lýsi úr markríl, síld og loðnu til manneldis. Margildi ehf. hefur þróað nýja og einstaka vinnsluaðferð, svokallaða hraðkaldhreinsun, sem gerir kleift að kaldhreinsa lýsi úr uppsjávartegundunum. 

Stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar

Í stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar koma nú fjórir nýir, en það eru; Sigrúnu Mjöll Halldórsdóttur, Hrefna Karlsdóttir, Sverrir Guðmundsson og Mikael Tal Grétarsson. Þeir sem sitja áfram annað árið í stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar eru: Alda Gylfadóttir, Björn Brimar Hákonarson og Sara Lind Þrúðardóttir. Á myndinni hér að ofan er núverandi stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar.

Þeir sem ganga úr stjórn eru; Bylgja Hauksdóttir, Guðbrandur Sigurðsson og Rannveig Björnsdóttir. Þeim er þakkað góð störf.