Dagskrá Sjávarútvegsráðstefnunnar

Fyrsta sjávarútvegsráðstefnan verður haldin 6.–7. september 2010 á Grand Hótel í Reykjavík. Heiti ráðstefnunnar er ,,Sjávarútvegsráðstefnan 2010 – Hafsjór tækifæra“. Umræða um sjávarútveg hefur verið mjög neikvæð undanfarið en eitt af markmiðum með Sjávarútvegsráðstefnunni er að benda á það sem vel er gert og þau fjölmörgu tækifæri sem eru í íslenskum sjávarútvegi þrátt fyrir allt. Á ráðstefnunni verða haldin tæplega 30 erindi. Ráðstefnan hefst með setningu og nokkrum yfirlitserindum og að þeim loknum verður ráðstefnusalnum skipt í tvo hluta. Í sal A verður fjallað um markaði og vöruþróun, vörumerkið Ísland og umhverfismerkingar. Í sal B verður tekið fyrir tækifæri til verðmætasköpunar og sjávarútvegstengda ferðaþjónustu. Í lokin verður ráðstefnan í einum sal og þar kynntar samantektir úr málstofum, panel og almennar umræður. Nákvæmari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar birtist á vefsíðunni fyrstu viku maí.